Vefsíða
Kort
Merkingar
Nánari upplýsingar
Í miðju hrauni stendur mannlíf og menning í blóma. Hafnarfjörður er einstakur bær með sérstæða sögu. Þegar bærinn fékk kaupstaðarréttindi árið 1908 bjuggu þar 1400 manns. Nú, um hundrað árum síðar, hefur íbúafjöldinn margfaldast en bærinn hefur haldið þorpsbragnum, stemmningunni og sálinni, enda státar bærinn af stærstu samfelldu byggð bárujárnsklæddra timburhúsa á Íslandi.
En Hafnarfjörður er ekki bara gamall bær því á síðustu árum hafa sífellt fleiri uppgötvað kosti þess að vera Hafnfirðingur. Bærinn hefur vaxið hratt og nýju hverfin hafa laðað að sér fjölbreytt og skemmtilegt mannlíf enda veit fólk að í Hafnarfirði er völ á fjölbreyttri verslun og þjónustu, menningarlífi og afþreyingu. Fjöldi góðra og öflugra leik- og grunnskóla er í bænum, ásamt tónlistarskóla, iðnskóla og hinni gamalgrónu menntastofnun Flensborg. Hafnarfjörður er íþróttabær og íþróttaiðkun barna mikil enda niðurgreiðir bærinn þátttökugjöld. Stutt er í ósnortna náttúru og tækifæri til útivistar í fögru umhverfi eru óþrjótandi.
En það er ekki bara gott að búa í Hafnarfirði, þar er líka fyrirtak að vinna. Í Hafnarfirði er fjölbreytt atvinnulíf með verðmætum nýsköpunarstörfum og hátækni auk hefðbundinna atvinnugreina og höfn bæjarins hefur verið landsins helsta höfn í árhundruð.
Þjónusta
Hafnarfjörður er þriðji stærsti bær landsins með rúmlega 26.000 íbúa. Hafnarfjörður er framsækið sveitarfélag sem byggir á fjölskylduvænu umhverfi, fyrirmyndarþjónustu og öflugu atvinnulífi.
Hafnarfjarðarbær kappkostar að veita bæjarbúum og öðrum þeim sem þurfa á þjónustu frá bæjarfélaginu að halda fyrirmyndarþjónustu. Áhersla er lögð á rafræna þjónustu þar sem allir eiga þess kost að reka erindi og mál á vefnum með öruggum hætti, hvar og hvenær sem er.
Þjónustuver Hafnarfjarðarbæjar er staðsett á Strandgötu 6. Þjónustuverið er í framlínu fyrir allar deildir og stofnanir bæjarins og er ætlað að einfalda og bæta aðgengi að upplýsingum og þjónustu sem bærinn veitir.
Þjónustuverið er opið alla virka daga milli kl. 08:00 og 16:00. Sími 585 5500
Hafnarfjarðarbær | Ráðhús Hafnarfjarðar
Strandgötu 6 | 220 Hafnarfjörður
Sími Þjónustuvers Hafnarfjarðar 585 5500
Fax 585 5509 | hafnarfjordur@hafnarfjordur.is
Kennitala 590169-7579